Samsýning veiðimanna á Akureyri
Á meðan sumir fara út að veiða 1. apríl þá fóru veiðimennirnir Guðmundur Ármann og Ragnar Hólm út að mála. „Þetta var ansi mikið fjör og ekkert of kalt. Við náðum hvor sinni myndinni: landað, blóðgað og svo beint heim í safnið,“ segir Ragnar Hólm og hlær. „Einhverjir spurðu „Hvar er stöngin?!“ þegar þeir sáu myndirnar á samfélagsmiðlum en við erum bara ekki komnir í veiðigírinn alveg strax.
Ætli Vestmannsvatn sé ekki ennþá á ís? Við förum eflaust þangað þegar líður á mánuðinn ef skilyrði verða hagstæð en annars er svo sem ekki mikið á dagskránni fyrr en seinna í sumar. Maður skreppur bara ef þannig liggur á enda nóg af góðum veiðislóðum í námunda við heimabæinn okkar Akureyri.“
Félagarnir ætla að halda saman málverkasýningu í Deiglunni um páskana, opið frá skírdegi til páskadags frá kl. 14-17 alla dagana. Verður eitthvað af veiðimyndum þar?
„Fólk með frjótt ímyndunarafl getur eflaust komið einhvers staðar auga á fiska í abstraktmálverkunum okkar – það má sjá þar allan skrambann ef vel er að gáð. En nei, við erum ekki með neinar rómantískar akvarellur að þessu sinni, enga veiðistaði eða veiðimenn, það bíður betri tíma. Ég sýni litlar abstraktmyndir sem eru unnar með akrýl á pappír og svo stærri olíumálverk, en Guðmundur er með grafíkver og svo stærri geómetrísk olíumálverk. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir!“ sagði Ragnar að lokum.