FréttirRannsóknir

Skelfilegar niðurstöður um erfðamengun í íslenskum laxi

LV sendu í dag frá sér harðorða fréttatilkynningu

Bændur, veiðiréttarhafar, allir sem hafa hagsmuni af stangveiði hér á landi og náttúruverndar-sinnar lýsa yfir miklum áhyggjum af niðurstöðum rannsóknar í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar (skýrsluna í heild má finna hér: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/skyrsla-um-erfdablondun-laxa). Sláandi niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta mikla erfðablöndun villtra íslenskra laxastofna við norskan eldislax.

Fyrir hönd þessara aðila vill Landssamband veiðifélaga (LV) koma eftirfarandi á framfæri:

  1. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á 4,3% erfðablöndun í íslenskum ám sem er yfir því viðmiði sem áhættumat erfðablöndunar setur. Þessar niðurstöður eru úr sýnum sem flest tilheyra hrygningarárgöngum áranna 2014-2018 en á þeim árum voru aðeins 6.900 tonn að meðaltali í sjókvíum hér við land. Síðan þá hefur umfang eldis margfaldast og má álykta út frá því að raunstaðan sé talsvert verri en þessar niðurstöður gefa til kynna.
  2. Erfðablöndun var staðfest í ám sem eru allt upp í 250 km frá sjókvíaeldi. Þær niðurstöður sýna að allir laxastofnar landsins eru undir í áhættunni um erfðablöndun.
  3. Erfðablöndun var staðfest í Víðidalsá í Húnavatnssýslu, Laxá í Aðaldal og Hofsá í Vopnafirði. Þó svo að LV telji að allir villtir laxastofnar hafi sinn sjálfstæða tilverurétt og séu mikilvægir, óháð skilgreiningu Hafrannsóknastofnunar á nytjastofnun, þá sýnir þessi niðurstaða að stórir stofnar í mjög fjárhagslega arðbærum laxveiðiám eru líka í hættu.
  4. LV harmar seinagang við útgáfu skýrslunnar en nýjustu sýnin sem lögð eru til grundvallar rannsóknarinnar eru síðan 2020 og þau elstu síðan 2004. Í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir náttúruna er eðlilegt að sú vöktun sem rannsóknin tekur til sé framkvæmd árlega og að niðurstöður berist hratt og örugglega. 

Í ljósi alls sem fram kemur í skýrslunni ítrekar LV marg framkomnar áhyggjur sínar af sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi enda öllum ljóst að sá iðnaður verður banabiti íslenskra laxastofna verði ekkert að gert. Erfðablöndun er óafturkræfur skaði og engar mótvægisaðgerðir geta komið í veg fyrir hana. LV krefst þess því enn og aftur að stjórnvöld taki á þessu máli og leggi fram áætlun sem miði að endalokum sjókvíaeldis á frjóum laxi hér við land.