Fimmtudaginn 22. febrúar s.l. var hlaðvarpsþátturinn Þrír á stöng með hnýtingarkvöld á Malbygg taproom í tilefni Febrúarflugna.
„Já, við ákváðum að skella í gott hnýtingarkvöld fyrst það er nú Febrúarflugur í fullum gangi og það er bara svo gaman að hitta aðra hnýtara og veiðimenn og spjalla um veiðina, flugur já og svo ég tali ekki um hnýtingar,“ sagði Hafsteinn, einn stjórnanda Þrír á stöng.
„Það var hörkumæting og voru þarna nokkrir þaulvanir hnýtarar til að hjálpa þeim sem styttra eru komnir í þessari frábæru skemmtun sem hnýtingarnar eru. Við skelltum líka í ansi skemmtilegt veiðipöbbkviss sem var vel tekið og voru veglegir vinningar,“ bætti Haffi við.
„Það er svo spurning sem kom þarna upp um kvöldið hvort þetta mætti ekki vera oftar og er það eitthvað sem við erum virkilega að spá í að gera, jafnvel að hittast fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði eða eitthvað svoleiðis, en það er allt í vinnslu,“ sagði Haffi kátur.
„Ég vil þakka Kristjáni í FOS.is fyrir að halda úti þessu magnaða verkefni sem Febrúarflugur eru,“ sagði svo Haffi í lokin og minnti fólk á hlaðvarpið og benti á nokkrar nýjungar sem eiga eftir að heyrast á næstunni.