„Það var bara frábært veður hérna við Grímsá í dag og mikið vatn í ánni. Konan veiddi fyrsta fiskinn í Grímsá þetta árið“, sagði Þórður Ingi Júlíusson, þegar við hittum hann við Grímsána í dag og fyrsti fiskurinn var kominn á land. En þennan fisk veiddi hún Elísa Marey Sverrisdóttir í Hólmavaðskvörn á fluguna Carme Changer. „Það veiddust sjö fiskar í dag á tveimur tímum. Mér líst vel á sumarið og verður spennandi að sjá hvernig það verður í sumar“, sagði Þórður enn fremur. „Þetta var frábær dagur við fengum 26 fiska í Leirá sem er mjög gott, skemmtilegur dagur“, sagði Harpa Hlín Þórðardóttir sem veiddi fyrsta fiskinn Leirá þetta vorið. Veiðin gekk því ágætlega þennan fyrsta dag og veðrið var gott.
Mynd: Þórður Ingi Júlíusson við Grímsá á fyrsta veiðidegi. Mynd María Gunnarsdóttir.