Ólafur Guðmundsson

Á fyrri árum — þá meina ég á þeim tíma er vatnið við þjóðgarð Íslendinga var aðgengilegt fyrir veiðimanninn án þess að þurfa að selja sál sína fyrir það eitt að renna fyrir fisk — var Þingvallavatn eins og að vera heima. Þarna setti ég líka í einn af þessum ísaldarstórhöfðingjum árið 2004 og var sá fiskur skráður í bækur sem stærsti urriði sem veiðst hafði í vatninu á síðastliðunum 50 árum. Engar setningar eru til um það hvernig tilfinningin var þegar ég landaði tröllinu og var hann vigtaður 28 pund. ROSALEGT!

Olafursjobirt1
Ólafur með vænan sjóbirting í Vatnamótunum en sá staður heillar sjóbirtingsveiðimanninn upp úr skónum.

Allir frítímar mínir og meira til fóru í að svala þorsta veiðifíkninnar og mjög fjótlega var ég farinn að skrá niður og merkja fiska úrvatninu fyrir Jóhannes Sturlaugsson urriðakóng, enda orðinn mikill heimanlingur við vatnið, og þarna nýttist það honum að fá mig í lið með sér. Sportið fór þá að breytast yfir í að vera eins og fullur vinnutími, mér til mikillar ánægju.

Lærdómurinn sem ég fékk við Þingvallavatn fylgir mér ætíð. Brennandi áhugi minn hélt ótroðinn áfram og með veiðistöngina að vopni lágu leiðir mínar í allar áttir. Sjóbirtingsveiði við Tungufljót og vatnamót fyrir austan fjall heltóku mig og fljótt áttaði ég mig á að ekki þarf rándýra laxveiðitúra til að fá adrenalínkikk, þar sem sjóbirtingur getur verið að trukka stærð og virkilega hraustur á öngli á viðráðanlegu verði. Laxveiði er að sjálfsögðu alltaf skemmtileg og grand í sjálfu sér enda hef ég sjálfur tekið laxatúra um land allt og hef ég starfað sem leiðsögumaður í slíkum ám.

Ég fór einnig til Rússlands með Tómasi félaga mínu árið 2007 í laxveiði og það var sannarlegt ævinitýri. Veiðiferð þar í landi í ánni Kola var sérstakt og spennandi og það liggur svo vel í minni að meðfylgjandi leiðsögumaður var alveg á tæpasta vaði við að vera ábyggilegur. Hann stýrði báti sem við fengum eins og unglingur undir áhrifum bakkusar, í engu allsgáðu vitundarsambandi. Báturinn sigldi af sjálfum sér um tíma og myndatökur okkar gátu alls ekki kallast góðar myndir af neinu tagi. Við félagarnir höfðum þó virkilega gaman af þessari ferð, þrátt fyrir llt, enda fékk ég sjálfur 22 punda lax sem var fyrsti stórlax minn og þarna var ég í fyrsta skipti með tvíhendu flugustöng sem ég kunni ekkert á en það gekk líka svona vel. Ógleymanleg ferð og hláturinn var hvergi sparaður.

Ólafur með risaurriðann sem hann veiddi í Þingvallavatni árið 2004, en fiskurinn vóg 28 pund!

Ég er stútfullur af þekkingu þegar kemur af veiði og gæti sagt endalausar sögur sem myndu fylla þetta tímarit út árið en ég er þannig gerður að ég kýs frekar að sitja við bakkann í góðra vina hópi og deila sögum. Konan mín tuðaði mig í þetta viðtal og vildi hún meina að börnin mín myndu kunna að meta þetta hvað allra mest og geyma þessa útgáfu sér til minningar #PABBIMINNERFRÆGUR.

Í dag er allur minn hugur og kærleikur fyrir austan við Kirkjubæjarklaustur hjá góðum vini mínum honum Ragnari á Hörgslandi en hann er forseti yfir ríkulegu sjóbirtingssvæði er nefnist Vatnamót. Vatnamót getur verið krefjandi þar sem að það nær yfir stórt svæði og allt undirliggjandi er svartur sandur og straumurinn leikur sér að því að moka sandinn í nýjar rennur og breytingarnar geta því verið mjög skjótar. Þetta getur verið nokkuð mikið hark því að vaðið sem fylgir því að finna svokölluðu skil, þar sem að jökulvatn og ferskvatn renna saman er síbreytilegt, en fyrir mér er það einmitt hluti af ævintýrinu. Veiðin byrjar þegar ég græja mig upp í vöðlurnar og held af stað út í flæðið með öll skinfæri stillt í hæðsta styrk og bakpokinn góði vel nestaður. #TAKKFYRIRSIMMS

Byrja ég í hvert sinn við dagrenningu að endurmeta svæðið og við það skapast ný áskorun og eru því dagarnir aldrei eins. Sjóbirtingurinn er í uppáhaldi hjá mér og verður það um ókomna tíð.

Stórir, smáir, ungir sem og gömlu höfðingjarnir sem bera sína sögu með gömul bardagasár frá hafinu hafa alla mína athygli og bíð ég ávallt spenntur eftir nýju veiðitímabili, til að fá að kynnast þeim öllum. Og svona í lokin, flugan sem þú velur sjálfur frá hjartanu VIRKAR.

Ólafur Guðmundsson.
Úr Sportveiðiblaðinu 1. tbl. 2018