Hvað getum við gert?
Í síðustu viku, 16. og 17. mars fór fram ráðstefnan Salmon Summit sem NASF hélt á Grand Hótel í Reykjavík. Þar var samankomið fólk víðsvegar að úr heiminum með það eitt að markmiði að fjalla um hvernig við getum verndað villta laxastofninn. Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, setti ráðstefnuna og í kjölfarið voru vísinda- og fræðimenn með fyrirlestra um hinar ýmsu hliðar þeirrar áskorunar sem við stöndum frammi fyrir. Stjórnmálamenn voru líka á meðal gesta og einn þeirra var Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Í máli hennar kom fram að Ísland ætli að verða aðili að NASCO og taka þátt í að vernda íslenska laxastofninn í alþjóðlegu samstarfi.
Að kvöldi fyrsta ráðstefnudagsins var skemmtilegt og fræðandi kvöld haldið í Bíó Paradís þar sem gestum bauðst að horfa á áhrifamikla heimildamynd sem heitir Our Waters og er eftir kvikmyndagerðarmanninn Josh Murphy. Hann gerði líka myndina Artifishial sem margir kannast við. Our Waters er skylduáhorf fyrir alla sem hafa áhuga á þessum málaflokki. Rannsóknarblaðamennirnir Catherine Collins og Doug Frantz mættu líka í Bíó Paradís og sögðu okkur frá væntanlegri bók sinni, Salmon Wars. Þau hafa unnið lengi að bókinni en hún segir frá því hvernig stórfyrirtæki eins og þau sem starfrækja sjókvíaeldi virka, hvernig þau fá leyfi til að starfa og hvernig þau ljúga til um nánast það sem þeim sýnist til að fá fólk á sitt band. Einnig fengum við að sjá stutt en áhrifaríkt brot úr heimildarmynd sem Jasper Paakkonen er að vinna að. Það verður spennandi að sjá lokaútkomu þeirrar myndar.
Seinni dagur ráðstefnunnar var með svipuðu sniði en þá fengu gestir líka að heyra hvað til dæmis leigutakar eru að gera til að vernda og hlúa betur að laxinum í sínum ám og hvað má betur fara í þeim málum.
Blaðamaður Veida hitti Elvar Örn Friðriksson einn skipuleggjanda og starfsmann NASF og spurði hann hvaða þýðingu það hafi að NASF haldi svona ráðstefnu á íslandi?
Elvar segir það hafa mikla þýðingu því að náttúruverndarsamtök um allan heim hafi ekki náð að hittast og leggja á ráðin undanfarin ár vegna faraldursins. Ráðstefnuna sóttu um 120 manns og allir eru að berjast fyrir sama markmiðinu: að vernda villta laxinn fyrir þeim ógnum sem að honum steðja í dag. Ráðstefnum sem þessum er ætlað að svara hvað fólk úr mismunandi geirum geti gert til að sporna við þeirri þróun sem á sér stað.
Blaðamaður spyr líka hvort það skili einhverjum árangri að halda svona ráðstefnu og hvort það hafi einhverja þýðingu að halda svona ráðstefnu?
Elvar segir morgunljóst að þessi ráðstefna skili árangri því fyrirtækin og náttúruverndarsamtökin sem saman séu komin á ráðstefnuna átti sig á því að þeirra barátta og vandamál eigi sér hliðstæðu í öðrum löndum og því er mikilvægt að alþjóðlegt samtal eigi sér stað. Elvar segir einnig að fiskeldisfyrirtækin vilja meina að þeir sem séu á móti eldi í opnum sjókvíum séu bara lítill hópur stangveiðimanna. Raunin er allt önnur eins og ráðstefnur sem þessar sýna fram á. Það er í raun mjög stór hópur fólks úr mörgum greinum úti um allan heim sem er búið að rannsaka þessi mál og hefur komist að þeirri niðurstöðu að laxeldi í sjókvíum sé einfaldlega ekki ásættanlegt. Ráðstefnuna sækja vissulega veiðimenn og hagsmunaaðilar en einnig náttúruverndarsamtök, vísindamenn, stjórnmálamenn, rannsóknarblaðamenn, kvikmyndagerðarmenn og margir fleiri. Allt þetta fólk vinnur að verndun náttúrunnar á sinn hátt og eiga það sameiginlegt að komast að þeirri niðurstöðu að það sem sé að gerast á Íslandi og í öðrum löndum sé ekki boðlegt.
Blaðamaður spurði að lokum hvort við sjáum einhverja niðurstöðu eftir svona ráðstefnu eða hvort þetta eigi eftir að skila árangri?
Elvar svarar játandi og nefnir sem dæmi að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hafi valið þennan vettvang til að tilkynna samstarf ríkisstjórnar Íslands og NASCO. Það myndi hún sennilega ekki gera nema talin væri mikil þörf á aðgerðum. Þeir hópar sem koma saman á ráðstefnum sem þessum stuðla að slíkum jákvæðum skrefum.
Þetta var afskaplega fagleg og fræðandi ráðstefna hjá NASF og þakka ég þeim innilega fyrir þeirra störf og baráttu.
Hafsteinn Már Sigurðsson